24/04/2024

Sameiningar og styrking innra starfs HSS

Sigríður Drífa Þórólfsdóttir Birkir Stefánsson

Aðsend grein: Sigríður Drífa Þórólfsdóttir
Erindi flutt á Ársþingi HSS 4. maí 2016

Ég undirritaður lofa því og legg við drengskap minn, að meðan ég er í þessu fjelagi, skal ég vinna með alhug að heill þessa fjelags, framförum sjálfs míns, andlega og líkamlega, og að velferð og sóma þjóðar minnar í öllu því sem þjóðlegt er, gott og gagnlegt.

Lögum og fyrir skipunum fjelagsins vil ég í öllu hlýða, og leggja fram krafta mína til allra þeirra starfa, sem mér kann að verða falið að leisa af hendi fyrir fjelagið (Skuldbinndingaskrá Málfluttningfélagsins Hvöt).

Svo hljóða fyrstu skrif í fundargerðarbók Málflutningfélagsins Hvatar, síðar Ungmennafélagið Hvöt, þann 20. mars árið 1920. Félagið var stofnað að Heydalsá og er enn til, 96 árum síðar. Þeir sem gengu í félagið voru skuldbundnir til að vinna að heilindum fyrir sig og félagið, það hefur ekki breyst. Á undanförnum árum hefur íbúum hins vegar fækkað mikið og er starfsemi Umf. Hvatar orðin að engu.

Félagsheimilið Sævangur var mikið til byggt af sjálfboðaliðum árið 1957 og var einnig gerður góður íþróttavöllur sem átti eftir að gera mikið fyrir sveitina. Þar voru haldnar æfingar og keppnir í frjálsum íþróttum og fótbolta á sumrin og ýmislegt brallað á veturna. Komu yfirleitt flestir sveitungar og gestir þeirra og áttu glaðan dag saman. Í dag er húsið starfsstöð Sauðfjárseturs á Ströndum og er gott að vita til þess að húsið hafi notagildi þótt tímarnir hafi breyst.

Snjallsímar, tölvur, sjónvörp og ipadar eru góður félagsskapur. Ég velti þó fyrir mér hvaða afleiðingar mikil notkun þessara tækja muni hafa á heilsufar manna og félagsleg samskipti. Forvarnarstarf íþróttahreyfingarinnar verður því enn mikilvægara en áður og hér þarf HSS að beita sér. Hvers kyns hreyfing er góð fyrir heilsuna, bæði andlega og líkamlega. Börn sem eru meðalíþróttafólk, afreksbörn og svo börnin sem hafa takmarkaða hreyfi- eða félagsgetu þurfa öll á öflugu íþróttastarfi að halda. „Að vera með“ er mikilvægt fyrir öll börn, ekki síst til að varna því að tölvan gleypi þau. Hér þarf að endurvekja gamla ungmennafélagsandann og tryggja að allir sitji við sama borð hvað varðar aðgengi að öflugu íþróttastarfi og umbun og hvatningu við hæfi.

Ég hef velt mikið fyrir mér sameiningum félaga og möguleikanum á að þjappa starfinu meira saman. Í stað þess að við störfum hvert í sínu horni þurfum við að vinna þetta sem ein heild, sama hvort um er að ræða Drangsnesing, Hólmvíking eða Tungusveitung. Því langar mig að leggja það til að starfi HSS verði breytt þannig að tryggja megi aukið samstarf. Tillagan felur í sér að sameina íþróttafélögin og deildarskipuleggja starfið. Þannig myndi starfa skíðadeild, golfdeild, fótboltadeild, sunddeild, frjálsíþróttadeild o.s.frv. Formaður hverrar deildar bæri ábyrgð á upplýsingaflæði, samskiptum við viðkomandi íþróttabandalag og þess háttar. Hlutverk formanns HSS væri því frekar fólgið í því að styðja við deildirnar í sínu starfi og að vera sá leiðbeinandi sem við þurfum og getum leitað til með spurningar.

Hér með fer ég þess á leit að ársþing HSS taki afstöðu til þess að sameina þau íþróttafélög sem heyra undir héraðssambandið og deildarskipuleggi starfið.

Virðingarfyllst,
Sigríður Drífa Þórólfsdóttir, formaður Umf. Hvatar