19/04/2024

Rostungur gekk á land í Ófeigsfirði

Rostungur í ÓfeigsfirðiRostungurinn sem sjá má á meðfylgjandi mynd bægslaðist 20-30 metra upp á land í Ófeigsfirði á Ströndum og var lífsmark með honum þegar að var komið. Dýrið dó síðan, en um er að ræða karlkynsdýr sem var yfir 4 metrar á lengd. Rostungar eru frekar sjaldgæfir flækingar við Ísland, en virðast hafa verið algengari fyrr á öldum og hafa fundist töluverðar beinaleifar af rostung, einkum á Vesturlandi og Vestfjörðum. Einnig benda örnefni til rostunga, en þeir voru áður kallaðir rosmhvalir og örnefni eins og Hvallátur er t.d. rakið til rostunga.

Rostungar geta orðið um 30-50 ára gamlir og mælast fullorðnir yfir 3 metrar á lengd og meira en tonn að þyngd. Þessi hefur því verið fullvaxinn, en það verða rostungar um 15 ára aldur. Hægt er að aldursgreina rostunga með því að skoða skögultennurnar því á þeim myndast árhringir.

Rostungur í Ófeigsfirði – ljósm. Svanlaug Sigurðardóttir