04/10/2024

Reglur um útivist og umgengni við landið

Í Mókollsdal í KollafirðiEins og allir vita er akstur utan vega bannaður með lögum nema jörð sé frosin og þakin snjó, en margar aðrar reglur um aðgengi að náttúrunni og umgengni um landið liggja ekki alveg eins ljóst fyrir. Í lögum um náttúruvernd kemur fram að öllum sé heimilt að fara um landið og njóta náttúrunnar, ef þess er gætt að ganga vel um og spilla engu. Heimilt er að fara um óræktuð eignarlönd án sérstaks leyfis, nema umferð sé takmörkuð með merkingum af landeigendum, t.d. tímabundið yfir varptíma eða vegna gróðurverndar. Menn skulu þá reyna að trufla ekki dýralíf, ganga vel um girðingar og hlið, sýna tillitssemi og hafa hunda í bandi. 

Heimilt er að fara gangandi um óræktað land, en menn eru hvattir til að fylgja merktum göngustígum og slóðum þar sem þeir eru og stytta sér ekki leið yfir afgirt land, tún eða einkalóðir. Landeigendum ber á hinn bóginn að tryggja að ferðamenn komist meðfram vatnsbökkum og strönd, eftir þjóðleiðum og skipulögðum stígum. Við farartálma skulu því vera prílur eða hlið. Umferð um vötn og ár eru hins vegar háð leyfi rétthafa eða landeigenda.

Hjólandi fólki ber að fylgja vegum og reiðhjólastígum þar sem þess er kostur og að sama skapi ber hestamönnum að fylgja reiðstígum. Í hálendisferðum ber hestamönnum að hafa fóður meðferðis og næturhólfum skal valinn staður á ógrónu landi. Sérlega varlega þarf að fara við stóðrekstur.

Einstaklingum er leyfilegt að tjalda til einnar nætur á óræktuðu landi, nema landeigendur gefi til kynna með merkingum að svo sé ekki. Þó eru menn hvattir til að nýta sér merkt tjaldsvæði þar sem því verður við komið og tjalda ekki nálægt bæjum án leyfis. Hópum ber hins vegar undantekningalaust að fá leyfi landeigenda fyrir tjaldbúðum.

Leyfilegt er að tína ber til neyslu á staðnum, sveppi, fjörugróður og aðrar jurtir, en leyfi þarf ef tínt er í miklum mæli innan eignarlanda. Heimilt er að tína ber og jurtir á þjóðlendum og afréttum, en ýmsar jurtir eru þó friðaðar og fágætar og þær er að sjálfsögðu bannað að skerða.

Veiðileyfi eru nánast undantekningarlaust í höndum veiðiréttarhafa sem oftast eru landeigendur og stundum veiðifélög eða upprekstrarfélög. Þetta á bæði við á landi og í ám, vötnum og við strendur landsins. Handhöfum veiðikorta er hins vegar heimilt að veiða fugla á veiðitímabilum einstakra tegunda utan eignarlanda.

Aðrar reglur geta síðan gilt um friðlýst náttúruverndarsvæði og þar er mikilvægt að ferðamenn afli sér upplýsinga. 

Heimild: Bæklingur Umhverfisstofnunar um almannarétt.