25/04/2024

Rætt um iðngarða á Reykhólum

Unnið er að því að koma á fót iðngörðum á Reykhólum í samstarfi Reykhólasveitar og Dalabyggðar, en Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða hefur skilað frumdrögum að skýrslu, sem unnin er fyrir sveitarfélögin, um hugsanlega iðngarða á Reykhólum. Ýmsar hugmyndir eru um atvinnustarfsemi þar, meðal annars um rekstur á verkstæði, eldi á sæeyrum o.fl. Í skýrslunni er einnig fjallað um Strandabyggð í þessu samhengi, en með tilkomu vegarins um Arnkötludal aukast möguleikar þessara sveitarfélaga á margvíslegu samstarfi. Frá þessu var sagt í Svæðisútvarpi Vestfjarða í dag og er hægt að
nálgast viðtal við Óskar Steingrímsson sveitarstjóra á Reykhólum á vef
Rúv.

ATH ritstjóra: Í upphaflegri gerð fréttarinnar hér á strandir.saudfjarsetur.is var talað um að Strandabyggð hefði einnig staðið fyrir gerð skýrslunnar í samvinnu við hin sveitarfélögin. Svo er ekki, þótt Strandabyggð sé einnig tekin til umfjöllunar í skýrslunni.