20/04/2024

Ráðstefnuritið Galdramenn komið út

Bókin Galdramenn. Galdrar og samfélag á miðöldum er nú komin út, en útgefandi hennar er Hugvísindastofnun og ritstjóri Torfi H. Tulinius. Bókin inniheldur tíu greinar sem byggjast á fyrirlestrum af ráðstefnunni Galdur og samfélag á miðöldum sem haldin var í Bjarnarfirði á Ströndum í september 2006. Greinarnar fjalla um samspil galdra og samfélags út frá ólíkum viðfangsefnum og eru dæmin ýmist frá Íslandi eða erlendis frá, úr sögulegum veruleika eða bókmenntum. Verður bókin komin til Hólmavíkur fyrir Haustþing Þjóðfræðistofu sem hefst kl. 15:00 á laugardag á Café Riis á Hólmavík og upp frá því fáanleg á Galdrasafninu á Hólmavík og í netverslun Strandagaldurs.

Í kynningu á bókinni segir: "Frá upphafi vega hefur mannkynið beitt göldrum til að hafa áhrif á umhverfi sitt og sig sjálft. Lengst af trúðu menn almennt á mátt galdra og hrifu þeir ekki síst vegna þess að á þá var trúað. Mannleg samfélög hafa því ávallt látið sig varða um galdra, en þó hefur afstaðan breyst í aldanna rás, ekki síst á miðöldum og fram eftir nýöld." 

Greinarhöfundar eru Ármann Jakobsson, Helga Kress, Magnús Rafnsson, Már Jónsson, Ólína Þorvarðardóttir, Rune Blix Hagen, Stephen A. Mitchell, Sverrir Jakobsson og Torfi H. Tulinius
 
Bókin er 194 bls. að lengd og prýdd fjórum myndum. Hún fæst einnig hjá Hugvísindastofnun, s. 525 44 62 eða netfang hugvis@hi.is.