11/09/2024

Photoshop námskeið að hefjast

Næstkomandi miðvikudag, þann 8.febrúar, hefst námskeið í myndvinnsluforritinu Photoshop í Grunnskólanum á Hólmavík. Leiðbeinandi verður Kristín Sigurrós Einarsdóttir umboðsmaður Fræðslumiðstöðvar Vestfjarðar. Kennt verður á miðvikudags- og mánudagskvöldum klukkan 20-22, alls 15 kennslustundir eða fimm skipti. Námskeiðinu fylgir glæný íslensk kennslubók með skýringarmyndum. Námskeiðsgjald er krónur 13.900 og greiðist með gíróseðli eftir námskeiðið.

Þátttakendum er bent á að athuga með niðurgreiðslu hjá stéttarfélögum sínum. Frestur til að skrá sig er til mánudagsins 6. febrúar klukkan 16. Skráning er í síma 8673164 eða á netfanginu stina@holmavik.is. Einnig er hægt að hafa samband við Fræðslumiðstöð Vestfjarða á Ísafirði.

Samkvæmt námskeiðslýsingu á vef Fræðslumiðstöðvarinnar læra þátttakendur eftirfarandi: Undirstöðuatriði myndvinnslu í Photoshop sem er öflugasti hugbúnaður sinnar tegundar. Farið verður í hvernig litajöfnun á sér stað og hvernig má skipta um liti á myndum eða myndeiningum, litalíkönin, grundvallaratriði upplausnar, hvernig skila á myndum í prentsmiðju og sjónvarp, skönnun mynda, hvernig vinna skal myndir sem eiga að birtast á heimasíðum og hvernig á að laga myndir (t.d. gamlar skemmdar ljósmyndir).

Gott er að hafa með sér stafræna myndavél með myndum á, 1-3 gamlar myndir, myndir á geisladiskum og ritföng. Ekkert af þessu er þó nauðsynlegt. Fartölvueigendur geta haft með sér fartölvur sínar.