28/03/2024

Persónukjör í sveitarstjórnarkosningum næsta vor

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í dag, frumvörp dómsmálaráðherra um persónukjör í alþingis- og sveitarstjórnarkosningum. Verða frumvörpin nú send stjórnarþingflokkunum til afgreiðslu eins og venja er. Persónukjörskerfi það sem lagt er til, er að írskri fyrirmynd og byggir á óröðuðum framboðslistum þar sem kjósendur geta raðað frambjóðendum þess lista sem þeir merkja við, í þá röð sem þeir vilja á svipaðan hátt og tíðkast í prófkjörum.

Með þessum breytingum er hvorki hróflað við listakosningu né hlutfallskosningakerfinu hér á landi. Kjósendur munu eftir sem áður kjósa tiltekinn lista og hefur persónukjörið einungis áhrif á það hvaða frambjóðendur hreppa þau sæti sem listinn fær í viðkomandi kjördæmi eða sveitarstjórn samkvæmt niðurstöðu kosninganna.

Þá er í frumvörpunum einnig lagðar til réttarbætur til handa þeim kjósendum sem ekki eru færir um árita kjörseðil, en lagt er til að þeim verði heimilt að hafa með sér, auk kjörstjóra, aðstoðarmann í kjörklefann að eigin vali. Með þessu nýmæli er komið til móts við þá sem sökum fötlunar ættu annars erfitt með að nýta sér rétt til þátttöku í persónukjörinu án aðstoðar.