25/04/2024

Óvíst með mjólkina, jólapóstinn og síðustu pakkana

Flugfélagið Ernir aflýsti í gær flugi í Árneshrepp vegna vélarbilunar í flugvélinni sem átti að fara á Gjögur. Þess í stað verður athugað með flug í dag eða fyrir hádegið á aðfangadag, en veður er leiðinlegt og spáin slæm fyrir þessa daga, hvassviðri eða rok af suðvestri. Því gæti svo farið að Árneshreppsbúar fengju ekki restina af jólapóstinum og pökkunum til sín fyrir jól, en oft kemur mikið af jólapósti í síðustu ferð fyrir jól. Einnig átti að koma síðasta sending af mjólkurvörum fyrir jól í útibú Kaupfélags Steigrímsfjarðar á Norðurfirði. Frá þessu er sagt á www.litlihjalli.it.is.

Árneshreppur er eina sveitarfélagið á Íslandi sem eingöngu nýtur heilsárs samgangna flugleiðina. Vegurinn norður er ófær, en samkvæmt vef Vegagerðarinnar er mokstur í gangi nú kl. 10:00 á Þorláksmessu, en vatnsveður er á Ströndum.