19/04/2024

Nýtt kaffihús opnað á Drangsnesi

Það er ekki á hverjum degi sem nýtt ferðaþjónustufyrirtæki opnar á Drangsnesi, en slíkur dagur var þó í gær og hafa reyndar verið óvenjulega margir á þessu ári. Í vor opnuðu hjónin Ásbjörn Magnússon og Valgerður Magnúsdóttir nýtt gistihús á Drangsnesi sem hefur fengið nafnið Gistiheimilið Malarhorn og á Bryggjuhátíðinni bættu þau um betur og opnuðu glæsilegt nýtt kaffihús þar rétt við hliðina sem heitir Malarkaffi. Húsið var til sýnis á hátíðinni og heitt á könnunni, auk þess sem kynning var á Kalda, bjór sem bruggaður er á Árskógsströnd.

Valgerður og Ásbjörn

Kaffihúsið er á efri hæð fiskvinnsluhús, en Ásbjörn er einnig skipstjórinn á Sundhana ST 3 sem býður upp á ferðir í Grímsey og ferðir á sjóstangaveiði. Ein hugmyndin er að nýta húsið einnig til að gera að fiski sem veiddur er á sjóstöng og matreiða hann jafnvel á staðnum.

Heilmiklar svalir eru framan við húsið þar sem útsýnið yfir að Grímsey er einstakt.

ferdathjonusta/580-malarkaffi4.jpg

Fjöldi fólks leit við í Malarkaffi á opnunardaginn.

ferdathjonusta/580-malarkaffi2.jpg

Valgerður og Ásbjörn eiga svo sannarlega hrós skilið fyrir framtakssemina – þetta hefur örugglega verið mikil törn síðustu vikur og nú er vonandi að heimamenn og gestir taki kaffihúsinu vel og verði dyggir viðskiptavinir.

Ljósm. Jón Jónsson