10/12/2024

Nýr ferðavefur fyrir Vestfirði

Nýr ferða- og markaðssetningarvefur fyrir vestfirska ferðaþjónustu var opnaður formlega á Ferðasýningunni í Fífunni í Kópavogi í gær. Sævar Pálsson formaður Ferðamálasamtaka Vestfjarða opnaði nýja vefinn formlega, en það er Markaðsstofa Vestfjarða sem hefur látið gera vefinn sem er á slóðinni www.westfjords.is. Sér Markaðsstofan einnig um ritstjórn hans. Þar er margvíslegur fróðleikur og fréttir af ferðaþjónustunni, auk upplýsinga um öll ferðaþjónustufyrirtæki á Vestfjörðum og Ströndum.

Strandamaðurinn Sævar Pálsson sem er fæddur og uppalinn í Djúpavík opnaði vefinn og Jón Páll Hreinsson forstöðumaður Markaðsstofunnar fylgist með. Örn Arnarson var einnig viðstaddur opnun vefjarins eins og sjá má, en hann mun ættaður úr Reykhólasveitinni og sjást fleiri af hans tegund þar á flugi. Athugasemdir við efni vefjarins og ef leiðrétta þarf upplýsingar er rétt að senda sem fyrst á Jón Pál á netfangið jonpall@westfjords.is.