10/09/2024

Nýr bátur, Hlökk ST 66, kemur til Hólmavíkur

Nýr bátur, Hlökk ST 66, bættist í flota Hólmvíkinga rétt eftir klukkan fjögur í dag. Eigandi hans og skipstjóri er Ingvar Pétursson á Hólmavík en báturinn sem er stór trefjaplastbátur var smíðaður í Hafnarfirði í vetur. Hlökk er línu- og handfærabátur og er 15 brúttótonn og 12,3 metrar á lengd. Tíðindamaður strandir.saudfjarsetur.is var í hópi Hólmvíkinga sem tóku á móti bátnum en ljósmyndir af heimkomunni er að sjá hér að neðan ásamt myndbandi af fleyinu þegar það renndi sér inn í hafnarkjaftinn á Hólmavík í brælusjó núna seinnipartinn.

Báturinn leysir af hólmi eldri Cleopötrubát með sama nafni og aðalvél bátsins er af gerðinni Yanmar 6KYM-ETE 650hp tengd ZF325IV gír. Báturinn er útbúinn siglingatækjum af gerðinni Furuno frá Brimrún er með vökvadrifinni hliðarskrúfu sem tengd er sjálfstýringu bátsins og er útbúinn til línu og netaveiða. Rými er fyrir 12 stk 660 lítra kör í lest og í bátnum er innangeng upphituð stakkageymsla. Borðsalur er í brúnni auk stóla fyrir skipstjóra og háseta. Svefnpláss er fyrir fjóra í lúkar auk eldunaraðstöðu með eldavél, örbylgjuofn og ísskáp. Báturinn er smíðaður hjá Trefjar ehf í Hafnarfirði.

Smellið hér til að sjá myndband af Hlökk ST renna í hafnarkjaftinn. (ATH 15 mb.)