29/03/2024

Nýjar hugmyndir um sameiningu sveitarfélaga

Gefið hefur verið út skjal starfshóps á vegum Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis sem kannað hefur sameiningarkosti sveitarfélaga í öllum landshlutum og var það kynnt á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga á Akureyri í vikunni. Á Vestfjörðum er einkum fjallað um tvo valkosti. Annars vegar að öll sveitarfélögin á Vestfjarðakjálkanum að Bæjarhreppi undanskildum sameinist í eitt 7300 manna sveitarfélag. Hin hugmyndin er nýstárleg, en hún snýr að því að Ísafjarðarbær, Bolungarvík og Súðavíkurhreppur sameinist annars vegar og hins vegar Reykhólahreppur, Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppur, Árneshreppur, Kaldrananeshreppur og Strandabyggð, en á þessu svæði búa 2100 manns.

Loks er nefnd sú hugmynd að til verði þrjú ný sveitarfélög á Vestfjörðum, eitt á þeim norðanverðum og annað á sunnanverðum, en sveitarfélög á Ströndum sameinist Reykhólahreppi og Dölum. Þá yrði til 1600 manna sveitarfélag.

Gert er ráð fyrir að Bæjarhreppur sameinist sveitarfélögum á Norðurlandi vestra, annað hvort þeim öllum eða Húnavatnssýslum.

Ögmundur Jónasson, nýr ráðherra í Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, lýsti þeirri skoðun sinni og stefnu að sameining sveitarfélaga þyrfti alltaf að byggjast á vilja íbúa. Hana ætti ekki að þvinga fram með lögum. Þetta er stefnubreyting, en Kristján Möller sem síðast gengdi þessu embætti stefndi ákveðið að því að næsta skref í sameiningarmálum yrði að sett yrðu lög um sveitarfélagamörk.

Skýrsluna alla má nálgast á vef Samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytis.