Categories
Frétt

Nokkur erill hjá lögreglu

Talsverður erill var hjá lögreglunni á Vestfjörðum um liðna helgi, talsvert bar á ölvun, bæði í heimahúsum og á veitingastöðum. Lögregla var kölluð til í nokkrum tilvikum og voru málin yfirleitt afgreidd á staðnum. Þrjú umferðaróhöpp urðu á Vestfjörðum í vikunni. Þann 5. janúar varð bílvelta við Ketileyri í Dýrafirði, þar fór bíll út af veginum og valt. Gat ökumaður hringt og látið vita, en honum gekk erfiðlega að komast út úr bílnum, en það tókst þó að lokum og var hann síðan fluttur með sjúkrabíl á Sjúkrahúsið á Ísafirði til skoðunar. Bifreiðin óökuhæf og flutt af vettvangi með krana. Þá urðu tvö umferðaróhöpp síðastliðinn sunnudag, útafakstur á Hnífsdalsvegi og annar á Djúpvegi. Ekki urðu slys á fólki í þeim.

Í vikunni var tilkynnt um skemmdarverk á golfvellinum í Tungudal, þar hafi greinilega verið ekið yfir völlinn á vélsleða og umtalsverðar skemmdir á vellinum, málið er í rannsókn lögreglu og allar upplýsingar væru vel þegar vegna þessa. Upplýsingasími lögreglunnar á Ísafirði er 450-3730.

Fimm voru teknir fyrir of hraðan akstur í vikunni, einn á Ísafirði, þrír í nágrenni við Hólmavík og einn á Holtavörðuheiði. Sá sem hraðast ók, var mældur á 133 km/klst, þar sem leyfður hámarshraði er 90 km/klst.