Categories
Frétt

Nóg að gera í jólakortunum hjá Gagnvegi

Strandamenn sýna engin kreppumerki í jólakortum þetta árið. Að minnsta kosti er síst minna að gera í jólakortaprentun hjá Gagnvegi þetta árið en á sama tíma í fyrra. "Þetta er aukning ef eitthvað er," sagði Kristín S. Einarsdóttir, útgefandi og eigandi Gagnvegar í viðtali við strandir.saudfjarsetur.is. "Pantanir fóru að berast rétt fyrir síðustu mánaðarmót og yfirleitt tekst að afgreiða þær fljótt og vel. Í fyrra var verið að prenta alveg fram á Þorláksmessu en nú er stefnan að taka við pöntunum fram til 17. des. Ég segi þó sjaldnast nei við fólk, það er einhvern veginn ekki minn stíll."

Kristín segir hægt að sérhanna kortin að óskum hvers og eins, varðandi myndir, texta og uppsetningu. Hún segist finna fyrir því að Strandamenn vilji í auknum mæli kaupa vörur og þjónustu í heimabyggð. "Einn helsti kosturinn varðandi stafræna prentþjónustu og vaxprentun er að hægt sé að panta oft og lítið magn í einu, meðan stærri prentsmiðjur eru yfirleitt hagstæðari eftir því sem upplagið sé stærra. Þá er afgreiðslufresturinn yfirleitt stuttur og menn losna við sendingarkostnað," segir Kristín og snýr sér aftur að prentuninni.