23/04/2024

Náttúrubarnahátíð í Sævangi

Langar þig að komast í betri tengsl við þitt innra náttúrubarn? Þá er um að gera að skella sér á Náttúrubarnahátíð á Ströndum sem haldin verður 28.-30. júlí. Þar gefst fólki færi á að finna og rækta náttúrubarnið í sér á skemmtilegri dagskrá fullri af allskonar fróðleik og fjöri sem má sjá hér að neðan! Hátíðin er fyrir alla fjölskylduna og náttúrubörn á öllum aldri, börn og fullorðna! Náttúrubarnahátíðin verður haldin á Sauðfjársetrinu í Sævangi á Ströndum. Aðgangseyrir er 3.000 kr. en hægt er að kaupa sig inn á hvern dag fyrir 1.500 kr.

Það er frítt fyrir hátíðargesti að gista í tjaldi á Kirkjubóli sem er rétt hjá Sævangi. Einnig er frábært tjaldsvæði á Hólmavík og ýmsir gististaðir í nágrenninu. Sundlaugin á Hólmavík býður gestum hátíðarinnar sem eru 14 ára og yngri frítt í sund meðan á hátíðinni stendur og eldri borga hálft gjald.

Dagskrá hátíðarinnar:

Föstudagurinn 28. júlí

17:00   Stutt og skemmtileg gönguferð. Gengið frá Húsavíkurkleif að Sævangi.

18:30   Setning hátíðarinnar. Dagrún Ósk yfirnáttúrubarn segir nokkur orð. Gengið að            veðurupplifunarstöðinni og framkvæmdur veðurgaldur til að tryggja gott veður alla helgina.

19:00   Tónleikar með hinni frábæru hljómsveit Ylju.

20:15   Náttúrubarnakviss. Skemmtilegur spurningaleikur fyrir alla fjölskylduna. Sauðfjársetur á             Ströndum býður hátíðargestum upp á vöfflur, djús og kaffi að kostnaðarlausu.

22:30   Fjörusöngur við Sævang.

Laugardagurinn 29. júlí

11:00   Náttúrujóga, hugleiðsla og hljóðslökun með koparhörpu með Arnbjörgu hjá Jógahjartanu.

12:00   Sirkus sýning. Hluti sirkushópsins Melodic Objects sýnir Same Picture – Different Pose.

12:30   Náttúrufjör: Jurtalitun, unnið úr ull, unnið úr rekavið, tálgað, Strandahestar, Ynja Art með
myndlistarsýninguna Hlýnun, náttúrumarkaður, opið hús í tilraunastofunni og plastdýragarðinum. Ljósmyndamaraþon og fleira.

14:00   Trommutúttur: skemmtileg smiðja þar sem sköpunarkraftur og efniviður úr umhverfinu og náttúrunni er nýttur til trommu- og hljóðfæragerðar. Í framhaldinu verður haldinn trommuhringur þar sem allur hópurinn lætur ljós sitt skína og trommuna óma. Listrænn stjórnandi smiðjunnar er Arnar Snæberg Jónsson.

14:15   Skemmtileg og fræðandi gönguferð þar sem plöntur í umhverfinu verða skoðaðar með Hafdísi Sturlaugsdóttur hjá Náttúrustofu Vestfjarða.

16:00   Útieldun: spennandi smiðja þar sem náttúrubörn læra að kveikja eld, umgangast hann og         náttúruna af virðingu og um leið nýta afurðir náttúrunnar í mat og drykk.

16:15   „Hvers vegna á ég að vernda náttúruna og hvernig fer ég að því?“ Stórfróðlegt spjall með    umhverfisstjórnunarfræðingnum Stefáni Gíslasyni.

18:00   Fuglafjör: Trítlað um teistuvarpið.

20:00   Snillingurinn Svavar Knútur með tónleika.

21:30   Drauga- og tröllasögur í sagnahúsinu!

Sunnudagurinn 30. júlí

11:00   Skemmtilegt spjall um sjósund með þjóðfræðingnum Pétri Húna Björnssyni. Hefur þig alltaf langað að prófa en aldrei þorað? Nú er tækifærið! Þeir sem áhuga hafa láta vaða í sjóinn eftir fróðleikinn. Við mælum með að skella sér í heita pottinn á Hólmavík eftir sjóinn!

13:00   Hinn stórskemmtilegi töframaður Ingó Geirdal með sýningu.

14:00   Útileikir á Sævangsvelli.

16:00   Fjölskyldufjallganga. Kirkjubólshringurinn genginn. Gangan tekur um það bil 2 klst. og hækkun er 220 m.