25/04/2024

N1 kaupir Staðarskála ehf

Brúarskáli í HrútafirðiFjölskyldan á Stað í Hrútafirði hefur selt allt hlutafé sitt í Staðarskála ehf til N1, en gengið var frá þessum kaupum í síðustu viku. Fyrir átti N1 um fjórðungshlut í Staðarskála ehf. Fyrirtækið rekur í dag Staðarskála, Veitingaskálann Brú sem er á myndinni hér til hliðar og Gistihúsið Staðarflöt. N1 hefur áform um að reka félagið í óbreyttri mynd þar til að nýr vegur í botni Hrútafjarðar verður tilbúinn. Þá er gert ráð fyrir að sameina Staðarskála og Veitingaskálann Brú við ný gatnamót þjóðvegar 1 og Djúpvegar undir merkjum Staðarskála og N1.

Bræðurnir Eiríkur og Magnús Gíslasynir, ásamt Báru Guðmundsdóttur frá Ófeigsfirði, eiginkonu Magnúsar, stofnuðu Staðarskála árið 1960. Börn Magnúsar og Báru hafa tekið virkan þátt í rekstri Staðarskála og dóttir þeirra Vilborg og hennar maður Kristinn Guðmundsson hafa starfað við Staðarskála síðustu 15 ár.

Staðarskáli í Hrútafirði á sér um 50 ára sögu í ferðamálum á Íslandi og hefur um áraraðir gengt mikilvægu þjónustuhlutverki á þjóðleiðinni milli Norður- og Suðurlands. Starfsemi fyrirtækisins hefur haft mikil áhrif á ferðamál í Húnaþingi og víðar. Staðarskáli er einn af stærri vinnuveitendum í Húnaþingi vestra, reksturinn skapar um 30 ársstörf.

Á þessum tímamótum vill fjölskyldan á Stað þakka öllu fyrrverandi og núverandi starfsfólki sem starfað hefur hjá þeim í gegnum árin fyrir ánægjuleg kynni og samstarf. Einnig þakkar fjölskyldan þeim fjölmörgu góðu og tryggu viðskiptavinum fyrir viðskiptin öll þessi ár um leið og nýjum eigendum er óskað velfarnaðar í starfi um ókomna tíð.