25/04/2024

Myndir af björgun

Það gerist sem betur fer ekki á hverjum degi að flutningabíll veltur fyrir utan gluggann á ritstjórnarskrifstofu strandir.saudfjarsetur.is á Kirkjubóli og vonandi gerist það aldrei aftur. Eftir bílveltuna í gær var mikið um að vera á veginum framan við Kirkjuból allan daginn. Vitni urðu að veltunni þar sem þau stóðu framan við gistihúsið og skiptu þau tafarlaust liði við að hringja á neyðarlínuna og huga að farþeganum í bílnum sem slasaðist, blæðing var stöðvuð og honum komið undir læknishendur. Skarst hann nokkuð á höfði og var saumaður saman á fjórum stöðum, auk þess sem hann var töluvert marinn. Ekki er hægt að segja annað en að viðbragðið hafi verið gott hjá sjúkrabíl, slökkviliði og lögreglu sem komu mjög fljótt á vettvang.

Bílveltan varð um kl. 14:00 um daginn. Slökkviliðið á Hólmavík og Björgunarsveitin Dagrenning unnu á vettvangi við að tryggja öryggið í kringum bílinn og stjórna umferð ásamt lögreglu, þangað til að öllum aðgerðum var lokið um kl. 21:30. Einnig sá Björgunarsveitin um að tæma bílinn sem var lestaður unninni rækju vestan af fjörðum og var hún færð yfir í aðra flutningabíla sem komu frá Hólmavík með lyftara og handaflinu. Bíllinn sem valt lá á miðjum veginum, en umferðin komst að mestu leyti framhjá um hlaðið á Kirkjubóli, nema stórir og fulllestaðir bílar sem komust ekki þá krókaleið.

Vegurinn var svo lokaður í dálítinn tíma á níunda tímanum í gærkveldi á meðan verið var að reisa bílinn við og á meðan biðu allmargir flutningabílar sem komu með varning úr sitt hvorri áttinni um það leyti. Það voru beltagrafa undir stjórn Jósteins Guðmundssonar og kranabíll með öflugan krana í eigu Sigurlaugs Baldurssonar sem reistu bílinn og flutningavagninn við. Fjöldi bifreiða- og vinnuvélastjórnenda frá Hólmavík og nágrenni kom á vettvang og hjálpaði til eftir því sem mögulegt var.

Eftir að búið var að koma þeim sem slasaðist undir læknishendur var myndavélin dregin fram og fylgst með björgunaraðgerðunum það sem eftir lifði dags.

frettamyndir/2006/580-velta9.jpg

bottom

1

1

frettamyndir/2006/580-velta2.jpg

frettamyndir/2006/580-velta19.jpg

bottom

bottom

1

Ljósm. Jón Jónsson.