20/04/2024

Munaðarlausir hrafnar fá skjól

.Von er á hröfnum á Galdrasýningu á Ströndum í dag en bóndi nokkur á Ströndum óskaði eftir því að sýningin tæki í fóstur tvo munaðarlausa hrafnsunga. Að sjálfsögðu var tekið vel í þá bón enda mega menn þar á bæ ekkert bágt sjá en starfsfólk sýningarinnar mun taka það að sér að ala þá upp í sumar. Síðastliðið sumar var það sama uppi á teningnum en þá voru tveir hrafnsungar í fóstri hjá sýningunni en þeir eru nú orðnir fullorðnir fuglar og bjarga sér sjálfir í lífsbaráttunni en það sést til þeirra af og til hér og þar í firðinum. Þeir hrafnar heita Galdra-Manga og Galdra-Imba eftir tveimur kerlingum á 17. öld sem ákærðar voru fyrir galdur, en sluppu að lokum frá dómi með tylftareiði.


Fyrst um sinn verður búið um hrafnana í austurhúsi sýningarinnar en þeir eru ennþá bjargarlitilir eins og ungviðum er tamt, en gert er ráð fyrir að eftir u.þ.b. tvær vikur þá verði þeir komnir í laupinn í galdragarðinum og vappi þar um á meðal gesta þegar fram líða stundir, ef þeim sýnist svo.

Það var illa spáð fyrir veru hrafnana af nokkrum aðilum á síðasta ári og því haldið fram að þeir yrðu til ama og leiðinda þar sem þeir yrðu of háðir fólki og myndu aldrei kunna fótum sínum forráð og að það yrði að lóga þeim í síðsumars því fólk fengi nóg af hrekkjum þeirra og uppátækjum. Þeir hrakspádómar fóru þó á allt annan veg, því björgun hrafnanna á síðasta ári tókst fullkomlega en þær Galdra-Manga og Galdra-Imba hafa tekið upp líferni hrafna í hvívetna og sjást stundum í hópi annarra unghrafna við Steingrímsfjörð. Þær stöllur voru og eru allra hugljúfi og einkum barnanna á Hólmavík sem mörg hver tóku miklu vinafóstri við þær og fylgdust með uppvexti þeirra daglega.

.