08/10/2024

Mikið um hraðakstur í vikunni

Í fréttatilkynningu um helstu verkefni síðustu viku hjá lögreglunni á Vestfjörðum kemur fram að í síðustu viku voru 24 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur á Vestfjörðum. Flestir voru stöðvaðir á þjóðveginum um Ísafjarðardjúp og sunnan Hólmavíkur. Eins og fram hefur komið í fréttum var ökumaður stöðvaður á föstudaginn eftir að bifreið hans mældist á 150 km hraða nálægt Kollafjarðarnesi, en þar er hámarkshraði 90 km. Fyrr sama dag var annar ökumaður stöðvaður í Kollafirði á 134 km hraða. 

Í gær, sunnudag, stöðvuðu lögreglumenn síðan ökumann á 122 km hraða skammt frá Ögri í Ísafjarðardjúpi, en þá er ekki nema hálf sagan sögð. Nokkru síðar var sami ökumaður stöðvaður í Staðardal, hinu megin við Steingrímsfjarðarheiðina, á 137 km hraða. Af þessum má ráða að fyrri afskipti lögreglunnar af ökumanninum hafi ekki dugað til að vekja hann til umhugsunar um þá áhættu sem í hraðakstrinum felst. Þessu til viðbótar mældust allmargir á yfir 120 km hraða á þessari leið. Í vikunni var einn ökumaður stöðvaður fyrir meinta ölvun við akstur á Ísafirði.

Lögreglumenn hafa haldið áfram átaki vegna óskoðaðra bifreiða og í vikunni var eigendum 42 bifreiða gefinn sjö daga frestur til að mæta með bifreiðar sínar til skoðunar. 

Aðfaranótt þriðjudags var brotist inn í aðstöðu Vélsmiðju Ísafjarðar við Njarðarsund. Einhverjum peningum var stolið og er málið í rannsókn.   

Í gær var tilkynnt um slys á Hjallahálsi í Reykhólahreppi. Þar hafði 12 ára stúlka, sem var að renna sér á sleða, hafnað á kyrrstæðri bifreið. Sjúkrabifreið kom frá Búðardal og flutti stúlkuna undir læknishendur, en ekki er vitað nánar um meiðsl hennar.