11/11/2024

Listaháskóli unga fólksins á Hólmavík

Dagana 8.-12. júní næstkomandi gefst ungu fólki á Vestfjörðum kostur á að sækja Listaháskóla unga fólksins á vegum Háskólaseturs Vestfjarða og Menningarráðs Vestfjarða í samstarfi við Fræðslumiðstöð Vestfjarða. Þessa viku standa til boða fjölbreytt dagsnámskeið í ólíkum listgreinum fyrir ungt fólk sem fætt er á árunum 1993-1997 og er áhersla lögð á listsköpun, frumkvæði og skapandi hugsun. Meðal viðfangsefna verður leiklist, stafræn ljósmyndun, myndasögugerð og tónlist, og geta nemendur ýmist tekið stök námskeið eða allan pakkann.

Undanfarin ár hefur Háskólasetrið boðið upp á Háskóla unga fólksins á Ísafirði en með Listaháskóla unga fólksins verður sú nýbreytni tekin upp að skólinn fer fram á þremur stöðum á Vestfjörðum í sömu vikunni, þ.e. Ísafirði, Hólmavík og Patreksfirði. Kennarar fara á milli en nemendahópar eru á hverjum stað. Fjölbreytt námskeið verða í boði á ólíkum listsviðum, en sérstök áhersla lögð á nám í skapandi listgreinum sem alla jafna standa ekki til boða.

Allar nánari upplýsingar um Listaháskóla unga fólksins verða aðgengilegar á vef Háskólaseturs Vestfjarða innan skamms, þar sem námskeiðslýsingar, kennarar og nánari tímasetningar verða kynntar – www.hsvest.is. Jafnframt verður kynningarefni dreift í öll hús á Vestfjörðum.