08/10/2024

Lionsklúbbur Hólmavíkur færir Lækjarbrekku gjöf

Í dag færði Lionsklúbbur Hólmavíkur leikskólanum Lækjarbrekku á Hólmavík veglega og kærkomna gjöf, svokallaða einingakubba. Einingakubbarnir eru hannaðir af Caroline Pratt sem var barnakennari í New York fylki í kring um aldamótin 1900. Kubbarnir eru úr gegnheilum hlyni og ganga stærðfræðilega hver upp í annan. Hugmyndafræðina á bak við vinnuna með þá sótti Pratt í smiðju framfarasinnans John Dewey´s sem taldi eins og hún að lærdómur væri árangursríkastur ef barnið réði sjálft ferðinni þ.e. þegar umhverfið er sniðið að þörfum barnsins.

Hinn fullorðni átti ekki að hella í barnið upplýsingum heldur vera tiltækur, efna til sjálfstæðrar skapandi hugsunar og umræðna sem leiddi barnið áfram í þekkingarleit þess. Vinnan með einingakubbana er talin hafa örvandi áhrif á flesta þroskaþætti hjá börnum m.a. líkamsþroska, félags-og tilfinningaþroska og málþroska. Kubbarnir eru afar aðlaðandi efniviður fyrir hendur, huga og ímyndunarafl barna og frábær eign fyrir leikskólann, segir á heimasíðu Lækjarbrekku.


Frá afhendingu einingakubbanna í dag.
Frá vinstri: Valdemar Guðmundsson, Victor Örn Victorsson, Þorsteinn Sigfússon, Kolbrún Þorsteinsdóttir og Jóhann Björn Arngrímsson.

Ljósm.: Hildur Guðjónsdóttir