23/04/2024

Lestrarfélag Tröllatungu- og Fellssafnaða

150-saevangurLestrarfélög voru ein af fyrstu félagasamtökunum sem almenningur stofnaði og tók þátt í hér á landi. Fyrsta lestrarfélagið fyrir almenning sem náði einhverjum þroska var stofnað í Gufudalssveit í Austur-Barðastrandarsýslu árið 1843 – Lestrarfélag Gufdæla. Stuttu síðar var fyrsta lestrarfélagið fyrir almenning stofnað hér á Ströndum og á það sér býsna merkilega sögu. Félagið á afmæli um þessar mundir, verður 159 ára þann 13. desember 2004, og greinin er sett hér inn í tilefni af því.

Lestrarfélag Tröllatungu- og Fellssafnaða

Lestrarfélag Tröllatungu- og Fellssafnaða var stofnað formlega 3. janúar 1846, en yfirleitt er þó stofndagurinn og afmæli félagsins miðað við 13. desember árið áður. Þá sammæltust menn um að stofna félagið í erfidrykkju Einars Jónssonar á Kollafjarðarnesi.

Félagið starfaði kröftuglega fram undir 1861 og af stofni þess spruttu til dæmis jarðabótafélag og bindindisfélag. Fyrst voru útlán bundin við þessar tvær sóknir en árið 1849 var lögum breytt þannig að utansveitarmenn gátu líka orðið félagar og fengið bækur. Árið eftir voru félagsmenn flestir eða um 50 og þar af voru tveir Dalamenn. Hluti safnsins var jafnan lánaður norður á Gjögur um vertíðina og má það kallast allmerkilegt. Eins var unnið að endurbyggingu Tröllatungukirkju á vegum félagsins á fyrstu starfsárunum. Lestrarfélög voru á þessum árum hálfgerðir húsbændaklúbbar og bókakaup og útlánum var stjórnað af þeim. Kona varð aldrei félagsmaður.

Upp úr 1861 dofnaði mjög yfir starfseminni og lognaðist félagið endanlega út af 1867 þegar Ásgeir Einarsson bókavörður á Kollafjarðarnesi flutti frá Ströndum. Félagið var síðan endurvakið 1886, en skipt í tvö félög árið 1890.

Lestrarfélag Fellshrepps

Lestrarfélag Fellshrepps varð til 1890, þegar nýlega endurvöktu Lestrarfélagi Tröllatungu- og Fellssafnaða var skipt í tvær deildir. Fyrsti formaður félagsins var sr. Arnór Árnason á Felli. Árið 1891 átti félagið 117 bækur, en þær voru orðnar 875 árið 1914.

Framan af var bókasafnið á ýmsum bæjum í sveitinni. 1936 fékk það svo inni í nýbyggðu samkomuhúsi ungmennafélagsins Gróðurs að Stóra-Fjarðarhorni. Þarna voru bækurnar til 1969 en eftir það voru þær öðru hverju á hálfgerðum hrakhólum. Bókasafn félagsins er nú aðgengilegt í Broddanesskóla.

Lestrarfélag Tungusveitar

Lestrarfélag Tungusveitar varð til 1890, þegar Lestrarfélagi Tröllatungu- og Fellssafnaða var skipt í tvennt. Stofnendur félagsins litu þannig á að þetta félag sé Lestrarfélag Tröllatungu- og Fellssafnaða endurvakið og nálgast 160 ára afmælið því. Fyrsti formaður félagsins, sem hét fyrst Lestrarfélag Kirkjubólshrepps, var Ásgeir Sigurðsson á Heydalsá. Árið 1891 átti félagið 128 bækur og árið 1946 eru bækurnar 1444. Árið 1981 voru bækurnar nálægt 3000.

Bókasafnið var fyrst á Kirkjubóli til 1903 en síðan lengi í Heydalsárskólanum. Frá 1958 hefur það síðan verið geymt í félagsheimilinu Sævangi.