11/11/2024

Kaldalónstónar á Hólmavík í undirbúningi

Nú er í undirbúningi mikil menningarhátíð á Ströndum sem ber yfirskriftina Kaldalónstónar. Um er að ræða samstarfsverkefni kirkjukórs Hólmavíkurkirkju, Þjóðfræðistofu og Snjáfjallaseturs. Hátíðin verður haldin 20. febrúar og verður kirkjukórinn með tónleika þar sem farið verður yfir lífsferil Sigvalda Kaldalóns og flutt tónlist eftir hann. Auk kirkjukórsins koma fram borgfirskir listamenn og ennfremur verður sama dag opnuð sýning á Hólmavík um Sigvalda, allt saman bráðskemmtilegt og stórfróðlegt. Viðar Guðmundsson kórstjóri og organisti segir útlit fyrir góða skemmtun: "Kórinn er í toppformi þessa dagana og Borgfirðingarnir sem mæta eru fyrsta flokks, svo verður sýning um meistarann sem er magnað efni, því hann hafði gríðarleg áhrif alls staðar þar sem hann var."

Verkefnið er styrkt af Menningarráði Vestfjarða.