25/04/2024

Jón í Hrófárseli

HrófárselSöguþáttur eftir Jón Jónsson.
Í landi Hrófár, nokkuð frá veginum um Arnkötludal, eru tóftir af Hrófárseli. Sjást þær vel frá veginum, nokkuð ofan við Kistuás, neðan við Skógarlandsborg. Líklega er best fyrir þá sem þekkja ekki vel til, að leita eftir áberandi grænum bletti undir raflínunni, um það bil 400 metrum ofan við veginn. Þar hafa greinilega verið allnokkrar byggingar, enn má sjá ummerki um íveruhús, útihús og stekk. Ekki er vitað með vissu um aðra búsetu í Hrófárseli, en á tímabilinu frá því um 1860 til 1900. Lengst bjó þar Jón Ívarsson sem er skráður húsmaður þar á árunum 1881-83 og 1888-1900. Hann var fæddur 25. apríl 1834, greindur maður og vel að sér. Kona Jóns var Guðrún Jónsdóttir (f. 1841) frá Víðidalsá og dóttir þeirra hét Hólmfríður Jónsdóttir (f. 8. júlí 1874, d. 22. maí 1963). Þau bjuggu áður Melum á Skarðsströnd 1865-71 og síðan í Gautsdal til 1877. Einnig bjuggu þau á Hrófá á árunum 1883-1888, en síðast á Kveingrjóti í Saurbæ.

Sú frásögn er um Jón að hann gekkst fyrir samskotum til hjálpar nauðstöddu fólki sem lenti í jarðskjálftunum miklu á Suðurlandi 1896. Hann var þá oddviti Hrófbergshrepps og var lagt eitthvað smávegis fram úr hreppssjóði í söfnunina. Þá var þetta kveðið:

Jón í Seli’ eg sælan tel,
í sínum greiða önnum.
Ferst það vel að skammta úr skel
skjálfta-neyðar-mönnum.

Jón drukknaði í Gilsfirði 10. febrúar 1903, var talið að hann hefði villst út á ís í kafaldsbyl. Hann var þá á leið úr Skarðsstöð að kvöldlagi og hafði ætlað út í svonefndan Tangabæ, aðeins spölkorn frá. Guðrún kona hans dó 15. ágúst sama ár.

Hrófársel Hrófársel Hrófársel Hrófársel

Í Hrófárseli. Efsta myndin er af fjárhúsum, en bæjarhóll fjær. Á næstneðstu myndinni má sjá að byggingin hefur náð yfir smápart af læknum, til að auðveldara væri að ná í vatn. – Ljósm. Jón Jónsson