13/11/2024

Jólamarkaður í Króksfjarðarnesi um helgina

Á vefnum reykholar.is er minnt á jólamarkaðinn í Kaupfélagshúsinu í Króksfjarðarnesi um helgina, bæði á laugardag og sunnudag kl. 13-18. Félög sem starfa í Reykhólahreppi selja þar ýmsan varning til jólanna og aðrar vörur, svo sem kort, jólapappír, perur, kerti, handunna muni, greni og margt fleira, sjálfum sér til styrktar og öðrum til gagns og gamans. Auk þess verður Kvenfélagið Katla með kaffisölu. Seljendur á markaðinum eru Handverksfélagið Assa, Lionsklúbburinn, Vinafélag Barmahlíðar, Krabbameinsfélag Breiðfirðinga, Björgunarsveitin Heimamenn og Kvenfélagið Katla. Félögin sem að markaðinum standa hvetja fólk til að versla í heimabyggð og lofa jólastemmningu í Kaupfélaginu!