20/04/2024

Inndjúpsdagar haldnir í fyrsta sinn

Laugardaginn 20. ágúst verður Inndjúpsdagur haldinn í fyrsta skipti, en þá verður efnt til einstakrar fjölskylduhátíðar með miðaldaívafi við innanvert Ísafjarðardjúp. Inndjúpsdagurinn er samstarfsverkefni fræðimanna sem starfað hafa við fornleifauppgröft í Vatnsfirði, aðila í ferðaþjónustu við innanvert Ísafjarðardjúp og Súðavíkurhrepps. Hægt verður að fræðast um forna frægð Vatnsfjarðar undir leiðsögn fræðimanna og staðkunnugra og í Heydal verður miðaldadagskrá og hirðdansleikur í anda Björns Jórsalafara sem bjó í Vatnsfirði á 14. og 15. öld með hirð sinni.

Vatnsfjörður við Ísafjarðardjúp er einn af merkustu sögustöðum landsins en allt frá landnámsöld og fram yfir siðaskipti var Vatnsfjörður stórbýli og höfðingjasetur. Undanfarin 8 ár hafa farið fram umfangsmiklar fornleifarannsóknir í Vatnsfirði og frá árinu 2005 hefur verið starfræktur þar alþjóða fornleifaskóli samhliða uppgreftrinum. Elstu mannvistarleifar sem fundist hafa í Vatnsfirði eru frá því snemma á 10 öld og segja má að þar hafi fundist eina heildstæða víkingaþorpið á Íslandi, auk margra fallegra gripa. Þar á meðal er gullnisti – en mjög sjaldgæft er að finna gull frá víkingatímanum hér á landi. Boðið verður upp á ókeypis leiðsögn um fornleifaleitarsvæðið í Vatnsfirði laugardaginn 20. ágúst kl. 13 og 15 og kl. 11 sunnudaginn 21. ágúst.

Í Heydal við Mjóafjörð, skammt frá Vatnsfirði, verður efnt til miðaldadagskrár á Inndjúpsdeginum í anda Björns Jórsalafara (1350-1415) sem bjó í Vatnsfirði ásamt hirð sinni. Meðal annars verður fluttur frumsaminn leikþáttur um Björn Jórsalafara kl. 17, laugardaginn 20. ágúst, og lesnir upp valdir kaflar úr Sögu Vatnsfjarðar, en ritun sögunnar er nýlega lokið og verður hún gefin út á næstu misserum. Á laugardagskvöldinu verður boðið upp á hlaðborð með miðaldaívafi í Heydal og að því loknu verður efnt til hirðdansleiks þar sem meðal annars verða kynntir miðaldadansar. Þá gefst börnum og unglingum tækifæri á að taka þátt í miðaldaleikjum á hátíðinni í Heydal og að fara í stutta reiðtúra gegn vægu gjaldi. Þar eru einnig kjöraðstæður fyrir fugla- og plöntuskoðun. Heitar laugar eru einnig á svæðinu, bæði í Heydal og í Reykjanesi.

Aðgangseyri á atburði Inndjúpsdagsins er mjög stillt í hóf. Miði á alla atburðina (leikþáttinn, hlaðborðið og dansleikinn) kostar 5.500 krónur. Miði á leikþáttinn kostar annars 1.500 kr. (frítt fyrir yngri en 12 ára), hlaðborðið kostar 4.000 kr. fyrir fullorðna (1.200 kr. fyrir börn 6-12 ára) og miði á hirðdansleikinn kostar 2.000 kr.