Categories
Frétt

Hús og götur á Drangsnesi fá ný nöfn fyrir Bryggjuhátíð

Nú er undirbúningur fyrir Bryggjuhátíð á Drangsnesi sem verður haldin laugardaginn 18. júlí að komast á verulegt skrið. Málningarpenslar og sláttuorf dansa hraðan polka þessa dagana. Það nýjasta er að nefna öll húsin í þorpinu eftir fiskimiðunum úti fyrir Drangsnesi. Verða sett skilti á hvert hús með nýja nafninu. Eru þetta mörg hver hin skemmtilegustu nöfn, til dæmis Fagurgalavíkurdjúp, Bykkjur og Krossbrún. Áður voru þessi orð í daglegu tali fólks, en nú fer þeim fækkandi sem kunna skil á öllum gjöfulu fiskimiðunum í Steingrímsfirði og norður um Bjarnarfjörð og Bala.


Göturnar fá líka ný nöfn
eins og Skerjaleið og Djúpleið en þetta eru nöfn á siglingaleiðum
í Steingrímsfirðinum. Vonast er til að skiltin fari upp um næstu
helgi.