29/03/2024

Hugmynd um hönnunarsamkeppni

Nokkuð er um liðið síðan olíutankar sem stóðu ofan við bryggjuna á Hólmavík voru fjarlægðir, en sagt var frá þeim viðburði hér á strandir.saudfjarsetur.is í nóvember 2007. Frágangi á svæðinu er þó ekki lokið eins og reyndar var bent á í frétt á strandir.saudfjarsetur.is í september í fyrra. Fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is tók að nýju mynd af svæðinu sem er í miðju þorpinu á Hólmavík á dögunum og vill koma þeirri hugmynd á framfæri að bæjarhátíðin Hamingjudagar verði notuð til að efna til hugmyndasamkeppni um hvernig svæðið geti orðið bæjarprýði.

Þeirri hugmynd sem yrði valin úr hópi innsendra hugmynda mætti svo hrinda í framkvæmd fyrir næstu Hamingjudaga og afhjúpa þá, t.d. með aðstoð sjálfboðaliðasamtaka eða unglingavinnu. Þá mætti síðan velja einhvern annan smánarblett í þorpinu og halda samkeppni um hann og veita honum í framhaldinu sams konar yfirhalningu árið eftir og þannig koll af kolli, ár eftir ár.

Rétt er að taka fram að fréttaritari veit ekkert um hvort Strandabyggð hefur einhverja sérstakt í huga með lóðina eða hvort hún hefur þegar verið skipulögð eða hönnuð með einhverjum hætti.

bottom

frettamyndir/2009/580-oliutank09b.jpg

Ljósm. Jón Jónsson