12/12/2024

Hugað að húsbyggingum á Hólmavík

Haraldur og Jón Gísli eigendur HöfðaÍ Svæðisútvarpi Vestfjarða sagði frá því í dag að fasteignafélagið Hornsteinar á Hólmavík sé að velta fyrir sér frekari húsbyggingum. Félagið var stofnað fyrir tæpum tveimur árum og hugðist til að byrja með byggja tvö parhús með fjórum tæplega 140 fermetra íbúðum við Miðtún. Í fréttinni segir. "Þegar er búið að reisa annað húsið og ekki útilokað að fleiri hús verði reist, náist að selja þá íbúð sem enn er óseld. Það eru Sparisjóður Strandamanna, Kaupfélag Steingrímsfjarðar og Trésmiðjan Höfði sem standa að fasteignafélaginu Hornsteinum. Að sögn Jóns E Alfreðssonar sem er í forsvari fyrir félagið hefur önnur af þeim parhúsaíbúðum sem reistar voru og teknar í notkun síðast liðið haust ennþá óseld en er þó í útleigu."


"Hann reiknar ekki með að annað parhús verði byggt nema náist að selja þessa íbúð. Hins vegar segir hann það vel koma til greina, að ef félagið fái lóð og fyrirséð sé þörf fyrir frekara húsnæði, að byggja fleiri íbúðir af einhverju tagi.

Ekki síst ef verkefni fari að skorta hjá iðnaðarmönnum á svæðinu. Parhúsið sem búið er að reisa var flutt inn frá Eistlandi en vinnan við það unnin af heimamönnun. Undanfarin misseri hefur náðst að selja flestar þær íbúðir eða einbýlishús sem auglýst hafa verið til sölu."