13/11/2024

Hólmadrangur á næsta súpufundi

Gunnlaugur Sighvatsson framkvæmdastjóri Hólmadrangs ehf mun fjalla um starfsemi Hólmadrangs á vikulegum súpufundi Þróunarsetursins á Hólmavík og Arnkötlu 2008 fimmtudaginn 26. mars á Café Riis, Hólmavík. Hólmadrangur ehf er rækjuvinnsla staðsett á Hólmavík og er fjölmennasti vinnustaðurinn á Ströndum. Hólmadrangur hefur starfað síðan 1978 og er leiðandi fyrirtæki á sínu sviði. Allur búnaður verksmiðjunnar hefur algerlega verið endurnýjaður á undanförum árum. Meðal annars var fjárfest í fullkomnum vigtunar- og pökkunarbúnaði árið 2005 sem gerði Hólmadrangi ehf. kleyft að sinna mun breiðari hópi viðskiptavina með ólíkar kröfur og þarfir. Afurðum fyrirtækisins hefur hvarvetna verið afar vel tekið og verksmiðjan vakið athygli fyrir gott skipulag og mikla sjálfvirkni þeirra sem hafa heimsótt hana.

Þetta verður tíundi súpufundurinn í vetur sem eru haldnir í hádeginu á Café Riis
alla fimmtudaga í vetur. Heyrst hefur að veitingar verði óvenju vel útilátnar, en Hólmadrangur mun leggja til rækjur í sérstakan meðrétt með súpunni. Mjög vel er látið af fundunum og þátttaka á þeim hefur
verið framar öllum vonum. Tilgangur með fundunum er að auka vitneskju heimamanna
um fjölbreytt atvinnulíf á Ströndum og ekki síður að efla skilning á milli
atvinnugreina með því að leiða saman frumatvinnugreinarnar og nýsköpun í
atvinnulífi.

Stefnt er að því að opna atvinnu- og menningarmálasýningu í
Félagsheimilinu á Hólmavík á vordögum sem verður uppi allt sumarið og mun
undirstrika öflugt og fjörugt atvinnu- og mannlíf á Ströndum. Súpufundirnir
hefjast klukkan 12:00 og standa til kl. 13:00.

Það eru allir hjartanlega
velkomnir og hvattir til að mæta á fundina sem eru haldnir að frumkvæði Arnkötlu 2008 og Þróunarsetursins á Hólmavík.

Hér er að finna dagatal fyrir
fundarröðina.