25/04/2024

Helstu verkefni lögregu í liðinni viku

Í fréttatilkynningu frá lögregunni á Vestfjörðum um helstu verkefni 26. maí til 2. júní kemur fram að í vikunni voru 15 ökumenn stöðvaðir fyrir of hraðan akstur. Flestir þeirra voru stöðvaðir í nágrenni við Ísafjörð eða innanbæjar þar.  Sá sem hraðast ók var hins vegar stöðvaður á 117 km hraða á Raknadalshlíð í Patreksfirði þar sem hámarkshraðinn er 90 km/klst. Á miðvikudaginn fór bifreið út af veginum í Staðardal, norðan Hólmavíkur. Bifreiðin skemmdist ekki mikið og var ökufær eftir óhappið en einn farþegi leitaði læknis vegna bakáverka.

Á föstudaginn varð ungur maður fyrir bifreið á Hafnarstræti á Ísafirði. Hann var fluttur á slysadeild með andlitsáverka. Þessu til viðbótar skemmdust tvær bifreiðar í óhöppum mánudaginn 3. júní. Í öðru tilfellinu fór bifreið út af veginum á Barðaströnd, skammt frá bænum Haga. Fjórir voru í bifreiðinni og komust allir út án meiðsla en eldur kom upp í bifreiðinni og brann hún áður en slökkvilið kom á vettvang. Þá valt bifreið í Álftafirði. Talið er að ökumaður hafi sofnað undir stýri og valt bifreiðin á veginum og hafnaði á hvolfi utan vegar, mikið skemmd ef ekki ónýt.   

Á sunnudeginum fótbrotnaði kona í fjöruferð á Ströndum. Konan var flutt að Árnesi og þaðan með sjúkraflugvél til Reykjavíkur. Á laugardag féll erlendur ferðamaður í skriðu í fjalllendi skammt ofan við Bíldudal. Sjúkrabifreið var send frá Patreksfirði ásamt lögreglu og var maðurinn fluttur á sjúkrahúsið á Patreksfirði, en hann reyndist ekki mikið slasaður. 

Einn ökumaður var kærður tvisvar sinnum, á tveimur dögum, fyrir meinta ölvun við akstur á Ísafirði. Annað skiptið á mánudegi en hitt á þriðjudegi í síðusty viku. Í seinna skiptið ók viðkomandi bifreið sinni á gagnavegg í Vestfjarðagöngum og var bifreiðin mikið skemmd. Þessu til viðbótar var einn ökumaður stöðvaður um helgina skammt frá Patreksfirði grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Talverður mannfjöldi var á sjómannadagshátíð á Patreksfirði. Lögreglan var með aukinn viðbúnað vegna þess og voru fengnir lögreglumenn frá fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, ásamt mönnum með fíkniefnaleitarhunda frá Bolungarvík og Blönduósi, til starfa á þessu svæði yfir helgina. Tvö mál komu upp þar sem haldlagt var meint hass í öðru málinu og amfetamín í hinu. Í öðru málinu voru haldlögð vopn sem fundust í fórum þeirra sem málinu tengdust, meðal annars svokölluð rafbyssa eða Taser, en slík vopn hafa verið nokkuð í umræðunni að undanförnu. 

Aðfaranótt mánudagsins var lokadansleikur hátíðarinnar á Patreksfirði. Einn maður var handtekinn eftir að hafa ráðist á nokkra gesti fyrir utan félagsheimilið þar. Maðurinn réðst á lögreglumann er reynt var að yfirbuga hann með varnarúða og fékk lögreglumaðurinn hnefahögg í andlit með þeim afleiðingum að hann slasaðist nokkuð.