29/03/2024

Helstu verkefni lögreglunnar á Vestfjörðum

Í fréttatilkynningu um helstu verkefni lögreglunnar í síðastliðinni viku kemur fram að fimm ökumenn voru stöðvaðir fyrir of hraðan akstur í umdæminu, þrír í nágrenni Hólmavíkur og tveir í nágrenni Ísafjaðar. Sá sem hraðast ók var á 115 km/klst, þar sem leyfilegur hámarkshraði er  90 km/klst. Þrjú umferðaróhöpp urðu í umdæminu í vikunni, tvö minniháttar óhöpp á Ísafirði, ekki slys á fólki, og einn útafakstur á Holtavörðuheiði. Þar var eignartjón og ekki slys á fólki. Þá eru menn enn að aka á búfé og var tilkynnt um eitt slík tilfelli á Barðaströnd og vill lögregla brýna fyrir vegfarendum að gæta varúðar þegar menn verða varir við búfé nálægt vegi.

Kærður var þjófnaður á kerru frá Húsasmiðjunni á Ísafirði, mun þjófnaðurinn hafa átt sér stað fyrir um það bil þremur vikum síðan. Þá var tilkynnt um þjófnað úr bifreið í Bolungarvík, þar var stolið hljómflutningstækjum.  Báðir þessir þjófnaðir eru óupplýstir.

Þá var tilkynnt um nokkur skemmdarverk, m.a. rúðubrot og skemmdir á bílum. Í vikunni tilkynnt um að búið væri að kveikja í skúr við sundlaugina í Reykjafirði í Arnarfirði og væri skúrinn brunninn til ösku.  Ekki er vitað hver þar hafi verið að verki, en hugsanlega hefur verið kveikt í skúrnum í vikunni áður. Umræddur skúr var notaður sem búningsaðstaða fyrir baðgesti. Ef einhver gæti getur gefið upplýsingar um hver hafi þarna verið að verki þá er hann beðinn um að hafa samband við lögreglu í síma 450-3730/450-3744.