Categories
Frétt

Helstu verkefni lögreglu í síðustu viku

Í fréttatilkynningu um helstu verkefni lögreglunnar á Vestfjörðum í síðustu viku kemur fram að þá sinnti lögreglan hefðbundnum verkefnum við umferðareftirlit og fleira tilfallandi. Límt var á nokkrar bifreiðar boðunarmiði vegna vanrækslu á að færa viðkomandi bifreiðar til skoðunar. Þá voru tveir aðilar kærðir vegna hraðaksturs í Hrútafirði. Eitt umferðaróhapp varð í vikunni á Vestfjörðum, en á fimmtudaginn var bifreið ekið út af á Dynjandisheiði. Ekki urðu slys á fólki, en bifreiðin óökuhæf og þurfti því að flytja hana af vettvangi með kranabíl.

Miðvikudaginn 13. maí varð vinnuslys í Bolungarvíkurgöngum, Hnífsdalsmegin. Þar féll grjót á bak eins starfsmanns og var hann fluttur á Sjúkrahúsið á Ísafirði til skoðunar.