11/10/2024

Hátíðarbragur við opnun Steinshúss á Nauteyri

steinsh3

Það var margt um manninn og viðamikil dagskrá við opnun Steinshúss á Nauteyri á laugardaginn var. Erindi fluttu Ása Ketilsdóttir kvæðakona á Laugalandi, Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir landsbókavörður, Kristín Helga Gunnarsdóttir formaður Rithöfundasambands Íslands, Ólafur J. Engilbertsson höfundur sýningarinnar, Össur Skarphéðinsson alþingismaður (fyrir hönd félagsins Vina Steins) og Þórarinn Magnússon stjórnarformaður Steinshúss, Elvar Logi Hannesson las ljóð eftir Stein og KK spilaði lög við ljóð hans. Eftir formlega dagskrá var boðið upp á veitingar og gestir skoðuðu sýninguna um Stein Steinarr sem sett hefur verið upp í húsinu. Það er Þórarinn Magnússon frá Ósi við Steingrímsfjörð sem hefur borið hita og þunga af verkefninu við uppbyggingu Steinshúss á Nauteyri.

Steinshús fer síðan í fullan rekstur næsta sumar, en þar verður rekin fræðimannaíbúð, sýning um Stein Steinarr og kaffistofa. Vefslóðin er www.steinnsteinarr.is.

steinsh1 steinsh2 steinsh4

Frá opnun Steinshúss – ljósm. Jón Jónsson