20/04/2024

Hafnarframkvæmdir í samgönguáætlun

Í nýrri samgönguáætlun sem kynnt var í gær er fjallað um framkvæmdir við hafnir á Ströndum á árunum 2011-14. Stórt verkefni er í gangi við hafskipabryggjuna á Hólmavík á þessu ári og verður því lokið á árinu 2012. Þar er um að ræða endurbyggingu stálþils, þar sem nýtt þil er sett utan á bryggjuhausinn, 104 metrar. Þá er gert ráð fyrir lögnum og þekju á bryggjuna árið 2012, samtals 1.600 fm. Kostnaður ríkisins við þetta verkefni er áætlaður 121 milljón og kostnaðarhlutdeild 60%.

Á árinu 2012 er einnig gert ráð fyrir kostnaði við innsiglingarbauju við sker framan austurgarðs á Hólmavík, 1,5 milljón. Hlutur ríkisins í þeirri framkvæmd er 75%. Þá er gert ráð fyrir að gamla flotbryggjan í smábátahöfninni (30 metra) verði endurnýjuð á árinu 2014 og eru ætlaðar 12 milljónir í það verkefni. Hlutur ríkisins er 90%. 

Á Drangsnesi er gert ráð fyrir framkvæmdum 2013, en þá verði endurbyggð þekja við krana og fram á enda bryggju, samtals um 280 fm. Kostnaður er áætlaður 5,3 milljónir og hlutur ríkisins 90%. 

Í Norðurfirði er gert ráð fyrir viðhaldsdýpkun smábátahafnar, innsiglingar og innan hafnar um 2,5 metra (um 700 fm svæði), en kostnaður við það er áætlaður 10 milljónir og hlutdeild ríkisins 90%.