10/12/2023

Gríp ég þá hatt minn og staf

Sunnudagskvöldið 14. mars kl. 19:35 verður sýnd í Ríkissjónvarpinu heimildarmyndin Gríp ég þá hatt minn og staf eftir Hjálmtý Heiðdal. Í myndinni er sögð saga Sveins Bergsveinssonar frá Aratungu í Staðardal  í
Strandasýslu, en foreldrar hans, Bergsveinn Sveinsson og Sigríður
Friðriksdóttir, eignuðust 15 börn. Sveinn braust til mennta af eigin rammleik og varð doktor í málvísindum. Hann bjó öll fullorðinsárin í Danmörku og Þýskalandi, þar af í Austur-Berlín í 36 ár, en langaði alla tíð að búa á Íslandi.

Að Sveini látnum voru fimm kassar með margvíslegum gögnum um
ævi hans sendir til Önnu Kristínar Kristjánsdóttur, bróðurdóttur hans.
Könnun á innihaldi kassanna opnaði Önnu Kristínu nýja sýn á ævi frænda
síns og úr þeirri könnun sprettur þessi kvikmynd.

Sveinn skráði
það sem á daga hans dreif með kvikmyndum, ljósmyndum, hljóðsnældum og í
bréfum, ljóðum og sögum. Hann bjó í Berlín á tímum nasistastjórnarinnar
og var vitni að stórfelldum loftárásum á borgina. Síðar bjó hann í sömu
borg á bak við múrinn er kommúnistar réðu þar ríkjum. Á Íslandi álitu
menn hann ýmist vera kommúnista eða nasista og í Danmörku hugðist
andspyrnuhreyfingin koma honum fyrir kattarnef.

Frásögn Sveins
er lifandi saga um lífshlaup einstaklings, en leiðir okkur jafnframt í
gegnum viðburðaríkt tímabil mannkynssögunnar. Svein dreymdi alla tíð um
að lifa og starfa á Íslandi en það voru örlög hans að dveljast erlendis
mestan hluta ævi sinnar.