Categories
Frétt

Góð aðsókn á þorra á Borðeyri

Þorrablót á BorðeyriÞorrablótið var haldið á Borðeyri síðastliðinn laugardag, en alls mættu á milli hundrað og tuttugu og þrjátíu manns. Það telst góð aðsókn sé miðað við undanfarin ár þar sem smátt og smátt hefur verið að draga úr aðsókn. Virðist sem fólki hafi þótt við hæfi að gefa “kreppunni” langt nef og hafa gaman, en einmuna veðurblíða var um helgina svo ekki spillti það fyrir. Gestir höfðu á orði hversu duglegt fólkið væri í svo litlu samfélagi sem Bæjarhreppur er, að hrista fram úr erminni ár eftir ár tveggja til þriggja tíma skemmtiprógramm. Þetta væri alveg búið fyrir sunnan, eins og sagt er, þar væri allt meir og minna aðkeypt.

Að skapa góða skemmtun sem þessa kemur ekki að sjálfu sér, vissulega spilar samsetning gesta, veður og annað máli, en það skiptir ekki síður máli er að leggja í þetta vinnu. Síðast en ekki síst að góður andi sé í þeim hópi sem að slíku stendur, því þar er jú grunnurinn lagður.

Þorrablótin í Bæjarhreppi hafa frá upphafi verið haldin af ungmennafélaginu Hörpu og kvenfélaginu Iðunni, en áratugir eru síðan fyrsta blótið var haldið. Fyrstu árin var blótað í samkomuhúsi ungmennafélagsins sem staðsett var á Borgum. Svo voru blótin færð að Borðeyri og hafa eftir það verið haldin í skólahúsnæði sveitarinnar, fyrst í gamla skólanum niðri á eyrinni í nokkur ár og síðan þar sem þau eru núna. Félagsmönnum í þessum tveimur félögum hefur verið að fækka jafnt og þétt hin síðari árin og er nú svo komið að hver og einn félagsmaður starfar um annað hvert ár í þorrablótsnefnd.

Myndir má nálgast undir þessum tengli, en myndasmiðir eru hinir og þessir.