25/04/2024

Glíman um Vestfjarðabeltið

VestfjarðabeltiðSannkölluð glímuhátíð verður haldin á Ísafirði laugardaginn 19. maí. Keppt verður um Vestfjarðabeltið og sæmdarheitið Glímukóngur Vestfjarða, en sá sem þar hefur titil að verja er Strandamaðurinn Stígur Berg Sophusson sem ættaður er frá Drangsnesi. Um Vestfjarðabeltið geta þeir einir keppt sem hafa heimilisfesti á Vestfjörðum. Keppni um Vestfjarðabeltið hefst kl. 12 og sama dag kl. 14 fer fram minningarmót um Guðna Albert Guðnason frá Suðureyri, glímukappa sem þekktur var undir nafnbótinni kóngabani. Tilkynna þarf þátttöku fyrir 18. maí til glímudeildar Harðar á Ísafirði á netfangið hermann@misa.is.

Minningarmótið er opið mót og keppt í opnum flokki ásamt keppni í þyngdarflokkum +85 kg og -85 kg. Í báðum mótunum verður kosið um fegurstu glímurnar þ.e. skjaldarhafa fegurðarglímu. Í fréttatilkynningu frá Glímudeild Harðar kemur fram að keppt var um Vestfjarðabeltið í fyrsta sinn eftir 73 ára hlé á síðasta ári. Beltið er ægifögur silfursmíð Helga Sigurgeirssonar gullsmiðs frá því um 1920 og var keppt um það í vel á annan áratug.

Guðni Albert Guðnason frá Suðureyri var mikill glímukappi á fyrri hluta síðustu aldar. Hann hlaut nafnbótina kóngabani eftir að hafa fellt glímukónga Íslands tvö ár í röð í Íslandsglímunni og var ávallt þekktur undir því nafni síðan. Afkomendur hans vilja minnast Guðna með því að gefa glæsileg verðlaun og farandbikar sem keppt verður um árlega.