25/04/2024

Fyrsti gesturinn í Skelinni heldur myndlistarsýningu

Þjóðfræðistofa býður fyrsta gestinn í Skelina velkominn á svæðið þessa dagana, en það er Guðrún Tryggvadóttir, myndlistarkona. Hún sýnir verk sín í Austurhúsi Galdrasafnsins, sunnudaginn 21. nóvember, klukkan 16.00. Guðrún er menntuð í myndlist frá Akademie der Bildenden Künste í München og hefur haldið fjölda sýninga bæði hér heima og erlendis. Þá myndskreytti hún barnabókina Furðudýr í íslenskum þjóðsögum en undanfarin ár hefur hún rekið umhverfisvefinn nattura.is. Nú vinnur hún að verkum sem myndgera ættartengsl og kynslóðaskipti.

Þjóðfræðistofa stendur fyrir verkefninu Skelin – lista- og fræðimannadvöl á Ströndum og hefur meðal annars hlotið til þess styrk frá sveitarfélaginu Strandabyggð. Lista- og fræðimenn munu dvelja í vetur að Hafnarbraut 7 á Hólmavík sem gengið hefur undir nafninu Grímeyjarhús, en þar er Hólmakaffi starfrækt á sumrin. Skelin er nú þegar uppbókuð fyrir um tuttugu lista- og fræðimenn og má búast við jafnmörgum viðburðum á Ströndum í vetur í tengslum við dvöl þeirra í Skelinni. Þar má nefna tónleika, fyrirlestra, námskeið og sýningar og verður fróðlegt að fylgjast með hvað "skríður út úr Skelinni" í vetur.

Sjá má meira um verkefnið Skelina á vefsíðu Þjóðfræðistofu www.icef.is.