29/03/2024

Fríður flokkur á leið á Nótuna

Á morgun, laugardaginn 12. mars, halda skólastjórnendur Grunnskólans á Hólmavík ásamt Stefáni Steinari og Önnu Sólrúnu tónlistarkennurum og sex nemendum Tónskólans á Hólmavík á Nótuna – uppskeruhátíð tónlistarskóla fyrir Vesturland, Vestfirði og V-Húnavatnssýslu. Hátíðin er nú haldin í Stykkishólmskirkju, en í fyrra var svæðishátíðin haldin hér á Hólmavík. Uppskeruhátíðin er hugsuð sem ný vídd í starfsemi tónlistarskóla og er markmiðið að auka sýnileika og styrkja tengsl tónlistarskóla við umhverfi sitt.

Uppskeruhátíðin er þrískipt og skipulögð þannig að þátttakendur frá öllu landinu, á öllum aldri, búa til efnisdagskrá sem endurspeglar ólík viðfangsefni tónlistarnemenda á öllum stigum tónlistarnáms. Það eru þau Gunnur Arndís, Tómas Andri, Ísak Leví, Sara, Dagrún og Stella Guðrún sem flytja tónlistaratriði frá Tónskólanum á Hólmavík.

Frá þessu er sagt á vef Grunnskólans á Hólmavík – www.strandabyggd.is/grunnskolinn.