12/09/2024

Fósturtalning í ám

Fyrir fáum árum var farið að telja fóstur í ám hér á landi. Er þetta gert til að hægt sé að koma  við hæfilegri fóðrun með tilliti til frjósemi ánna, en þá eru ærnar fóðraðar miðað við fjölda fóstra. Einnig auðveldar þetta mjög vinnu á sauðburði þegar fyrirfram er vitað hvaða ær eru einlemdar og hverjar fleirlemdar. Á fimmtudaginn komu tveir bændur sunnan úr Skaftárhreppi, þær Elín Heiða Valsdóttir bóndi í Úthlíð og Heiða Guðný Ásgeirsdóttir bóndi á Ljótarstöðum, til að telja fóstur í ám í Tungusveit. Þær komu sér upp tækjabúnaði til þessara hluta og hafa af þessu nokkra atvinnu, fara um Suðurland og allar götur vestur á firði. Eftir góða skorpu í Tungusveit lá leiðin vestur í Önundarfjörð. 

Á fimmtudaginn komu þær á fjóra bæi,Tröllatungu, Húsavík, Smáhamra og enduðu á Heydalsá þaðan sem þær tóku sprettinn vestur á firði. Þær koma svo í bakaleiðinni í dag til að kanna hvort hrútar Jóns Kristinssonar á Klúku hafi staðið sig í jólaönninni, en Jón var sérlegur fulltrúi Tungusveitunga og fylgdi konunum um sveitina til að allt færi nú settlega fram.

Búist var við að Jón yrði orðinn lúinn þegar röðin kæmi að Smáhömrum, því var gamli Bassi (Guðbrandur Sverrisson) fenginn honum til halds og trausts.

Heiða Guðný telur fóstrin.

Talningarkonurnar keppast við og það er grannt fylgst með hverri hreyfingu þeirra.

Róbert passaði kaffikönnuna og sá um að ekkert yrði eftir af pönnukökunum ásamt margvíslegu stússi.

Þær einlembdu fá ekki háa einkunn hjá Guðbrandi á Smáhömrum, blátt strik þýðir einlembd, ekki gott. – Ljósmyndir: Guðbrandur Sverrisson