19/04/2024

Formúlubikarinn fær nýjan samastað

Hinn eftirsótti formúlubikar strandir.saudfjarsetur.is var afhentur í litlu hófi á Hólmavík í dag, en 31 lið vaskinna manna og kvenna tóku þátt í formúlukeppni strandir.saudfjarsetur.is á keppnistímabilinu. Eins og kunnugt er þá stóð Jón Gísli Jónsson uppi sem sigurvegari í haust, en hann hélt 1.sæti frá upphafi tímabilsins sem hófst í byrjun mars. Veigar Arthúr Sigurðsson, meistarinn frá í fyrra, lenti í 14. sæti að þessu sinni. Þeir félagar ætla sér báðir stóra hluti á næsta ári og vinna bikarinn aftur. "Það er alveg á hreinu að þessi bikar fer aldrei í burtu úr stofunni heima hjá mér", sagði Jón Gísli hróðugur eftir að Veigar hafi afhent honum bikarinn.

Veigar hélt því fram að leikurinn væri rétt að hefjast og hann næði titlinum aftur á næsta ári af Jóni Gísla. "Ég þurfti bara að losna við bikarinn um tíma til að mála hilluna sem hann stóð á en málningin verður örugglega þornuð fyrir næsta haust". Mörg önnur meinlegri skot fuku á milli kappanna í annars tíðindalausu hófi, sem ekki verða endurtekin á þessum vef.


Jón Gísli tekur við formúlubikar úr höndum Veigars Arthúrs