28/03/2024

Flutningabíll útaf og olíubíll valt

Í fréttatilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum um verkefni síðustu viku kemur fram að á miðvikudaginn síðasta rann vöruflutningabifreið út af Djúpvegi um Borgarháls í Strandasýslu vegna hálku. Bifreiðin rann afturábak niður brekkuna og hafnaði á hjólunum utan vegar. Loka þurfti veginum á meðan bifreiðinni var komið aftur upp á veginn, en áður þurfti að afferma bifreiðina sem var lestuð af timbri. 

Þá valt fulllestuð olíubifreið á vinnusvæðinu þar sem verið er að leggja veginn um Arnkötludal. Atvikið var tilkynnt á laugardagskvöldið og var ökumaðurinn fluttur til skoðunar á sjúkrahús. Starfsmenn Olíudreifingar sáu um að losa farm bifreiðarinnar en verktakar á svæðinu fjarlægðu síðan bifreiðina. Ekki er talið að olía hafi lekið frá bifreiðinni, en lögreglan á Vestfjörðum vinnur að rannsókn málsins. 

Alls voru átta umferðaróhöpp tilkynnt í vikunni. Á mánudaginn varð árekstur í Breiðadalslegg Vestfjarðaganga. Þar rákust saman bifreiðar sem komu úr gagnstæðri átt. Talsverðar skemmdir urðu á bifreiðunum en engin slys urðu á fólki. Á föstudaginn valt bifreið út af Djúpvegi við Ósvör, skammt innan Bolungarvíkur. Tvær stúlkur voru í bifreiðinni og sluppu þær án meiðsla. Bifreiðin var mikið skemmd eftir óhappið. 

Í síðustu viku hélt lögreglan áfram átaki vegna bifreiða sem ekki hafa verið færðar til lögbundinnar skoðunar. Eigendum 17 bifreiða var gefin 7 daga frestur til að færa þær til skoðunar en skráningarnúmer voru fjarlægð af þremur bifreiðum þar sem slíkum fresti hafði ekki verið sinnt. Þá var haldið uppi sérstöku eftirliti með ölvunarakstri í og við þéttbýliskjarna á Vestfjörðum um helgina.  Allir ökumenn sem voru stöðvaðir í þessu eftirliti reyndust alsgáðir.

Útaf í hálku í Borgahálsi – Ljósm. af vefnum www.sgverk.com þar sem finna má fleiri myndir af óhappinu.