12/09/2024

Fjör á jólamarkaðinum

Á sunnudaginn milli 3 og 4 verður vöfflukaffi á jólamarkaðnum hjá Strandakúnst í Félagsheimilinu á Hólmavík. Á sama tíma verður uppákoma þar sem sungin verða jólalög og er þar á ferðinni dúettinn KKK eða Kristján Knudsen og Konan hans Lára. Þau ætla að syngja og spila, gestum til gleði og ánægju. Jólamarkaðurinn er opinn fimmtudaga til sunnudaga frá 14:00-18:00. Að sögn Ásdísar Jónsdóttur hefur salan farið vel af stað og mikil hreyfing verið á vörum.

Það verður svo sungið líka sunnudaginn 18. des. og fimmtudaginn 22. des. milli þrjú og fjögur. Í fyrra skiptið er á ferðinni sönghópurinn BJÚTÍ AND ÐE BEAST sem samanstendur af fimm hressum og söngglöðum söngkröftum. Seinni daginn syngja Sigga og Gulli og kannske kíkir þá jólasveinn í heimsókn.

Þeir sem nota tölvur og lesa svona langt í þessari frétt eru vinsamlegst beðnir að uppfræða tölvulausa vini sína, kunningja, ættingja og fjölskyldumeðlimi sem sjá annars aldrei eða fá þessar upplýsingar. Trallalalala.