28/05/2023

Finnbogastaðaskóla slitið

Finnbogastaða-skóla í Trékyllisvík var slitið þann 20. maí s.l. með hefðbundnum hætti en skólanum lýkur með sundnámsskeiði sem verður haldið dagana 4.-12. júní í Krossneslaug. Jóhanna Þorsteinsdóttir skólastjóri ávarpaði nemendur og  gesti við skólaslitin en fimm nemendur stunduðu nám við Finnbogastaðaskóla í vetur. Einn nemandinn, Árný Björk Björnsdóttir kveður nú skólann og heldur suður yfir heiðar með haustinu í 10. bekk. Allir nemendur fengu bækur í viðurkenningarskini. Opnuð var sýning á vinnu nemenda sem var með miklum glæsibrag og auðvitað var boðið upp á súkkulaði og gómsætar kökur að hætti matráðskonunnar.


Nemendur Finnbogastaðaskóla gáfu út skólablað að venju en meðal efnis í blaðinu að þessu sinni er viðtal við Idol stjörnu Strandamanna, Heiðu Ólafs, ásamt miklu af öðru skemmtilegu efni. Rúsínan í pylsuendanum í félagslífi nemendanna í vetur er útgáfa geisladisksins Strandamenn í stuði sem er afrakstur tónlistarþema skólans í vetur. Ýmsir aðilar láta þar ljós sitt skína en diskurinn er til sölu  hjá nemendum og hægt er að nálgast hann í símum 451-4030 eða 451-4015. Allur ágóði af sölu geisladisksins rennur í ferðasjóð nemenda Finnbogastaðaskóla.

.
Nýjasta drossían í Árneshreppi. Róbert við stýrið.

.
Nemendur og skólastjóri Finnbogastaðaskóla.