25/04/2024

Ferða- og útivistarkortin fáanleg á vefnum

Ferðamálasamtök Vestfjarða hafa undanfarið unnið að útgáfu á alhliða ferða- og útivistarkortum fyrir Vestfirði og Dali. Á liðnu sumri komu fyrstu fjögur kortin út sem ná yfir syðri hluta Vestfjarða frá Vesturbyggð, Reykhólasveit og syðri hluta Stranda auk Dalasýslu. Til stendur að þau þrjú kort sem vantar upp á til að dekka allan Vestfjarðakjálkann komi út snemma á næsta ári. Ferðakort Ferðamálasamtaka Vestfjarða sem hefur verið hægt að nálgast á öllum helstu ferðamannastöðum á Vestfjörðum og í Dalasýslu eru núna einnig fáanleg í vefversluninni MagiCraft og eru send þaðan hvert á land sem er og um veröld alla þar sem póstþjónustu er að finna.

Á þeim fjórum kortum sem þegar eru komin út er að finna samtals 162 leiðarlýsingar á sérmerktum göngu- og reiðleiðum og verða þær hátt í 300 þegar öll kortin verða komin út á næsta ári. Þetta er viðamesta verkefni sem Ferðamálasamtök Vestfjarða hafa lagt í frá því að samtökin voru stofnuð árið 1984 en samtals er kostnaður við útgáfuna áætlaður um 11 milljónir króna. Hægt er að skoða og kaupa göngukortin á slóðinni www.strandir.saudfjarsetur.is/gongukort.