24/04/2024

Eru framkvæmdir við vegabætur á Ströndum framundan?

300-einbreittslitlag-bitraFyrir liggur að ný samgönguáætlun verður lögð fram á nýju ári og fjallað um verkefni í vegagerð næstu 4 ár og 12 ár. Fjárveitingar til samgöngumála hafa verið skornar verulega niður og útlitið ekki gott með nauðsynlegar vegabætur. Á Strandavegi nr. 643 hafa Strandamenn verið sviknir um þrennar framkvæmdir sem voru á samgönguáætlun; við vegarkafla innst í norðanverðum Steingrímsfirði sem var skilgreindur sem sérstakt flýtiverkefni og mótvægisaðgerð vegna niðurskurðar í þorskveiðum, vegabætur frá Kolbeinsvíkurá til Djúpavíkur sem fjármagn var ætlað til á árunum 2009 og 2010 og loks átti að setja 60 milljónir í vegagerð um Bjarnarfjarðarháls á árinu 2008. Þar að auki hefur lengi staðið til að gera við brúna á Bjarnarfjarðará.

Á korti sem birt er í Framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar um verkefni sem hafa verið boðin út og eru í framkvæmd 2010 eru engin verkefni á Ströndum, utan þess að ljúka á við nýja Arnkötludalsveginn. Þar er m.a. eftir að leggja síðari umferðina af slitlaginu og eins þarf að gera við slitlagið sem hefur látið á sjá eftir að vegurinn var opnaður í haust.

Á þessu sama korti í Framkvæmdafréttum er ranglega merkt að komið sé bundið slitlag milli Drangsness og Hólmavíkur. Þar vantar ennþá að lokið sé við vegarkaflann frá afleggjaranum að Geirmundarstöðum að vegamótum í Staðardal. Í lista um útboðsverk er tekið fram að engin útboð séu fyrirhuguð á næstunni.

Á árinu 2010 átti samkvæmt núgildandi samgönguáætlun einnig að endurnýja veginn milli Þorpa og Heydalsár við sunnanverðan Steingrímsfjörð. Sá vegur tilheyrir nú á þjóðvegi 68 Innstrandavegi og ólíklegt hlýtur að teljast að farið verði í það verkefni strax miðað við frestanir á öðrum verkefnum Vegagerðarinnar og niðurskurði á því fjármagni sem til ráðstöfunar er.

Þá er vegabótum við einbreiða slitlagið í Bitrufirði á Innstrandavegi nr. 68 ekki lokið. Þegar framkvæmdum var hætt í Bitrunni síðastliðið sumar var enn eftir að lagfæra verst farna kafla vegarins, á milli Óspakseyrar og Tunguár í botni fjarðarins. Vonandi verður farið í framkvæmdir þar næstkomandi sumar.