24/04/2024

Er ICE-neyðarnúmer í símanum þínum?

Oft eru vandræði með að finna símanúmer nánustu aðstandenda þeirra sem lenda í slysum eða skyndilegum veikindum. Breskur sjúkraflutningamaður fékk þá góðu hugmynd að fólk setti símanúmer einhvers sinna nánustu í minnið í GSM-símanum undir nafninu ICE, en ICE er skammstöfun fyrir „In Case of Emergency“. Þessi hugmynd hefur nú breiðst um heiminn með örskotshraða. Hvað með þig?

Þegar sjúkraflutningafólk, læknar og hjúkrunarfólk hlúa að fólki em lent hefur í slysum eða bráðum veikindum er eitt af því sem þarf að gera að ná strax í nánustu aðstandendur og láta þá vita og ekki síður til að fá upplýsingar. Oft er byrjað á því að leita í minni GSM síma hins sjúka eða slasaða, en oftast er ómögulegt að sjá af nafnalistanum í minni símans hver á listanum er nánasti aðstandandi. En standi bókstafirnir ICE er allt á hreinu með það og hægt að hringja strax.

Talsmaður sænsku neyðarlínunnar segir þessa hugmynd frábæra og hvetur alla til að setja stafina ICE og símanúmer nánasta aðstandanda þar undir í minnið. Í neyðartilfellum getur það skipt sköpum að samband náist við nánustu aðstandendur hið fyrsta svo hægt sé að fá upplýsingar um hver hinn veiki eða slasaði er eða t.d. hvort hann sé hrjáður af einhverjum sjúkdómum, hvaða lyf má gefa honum o.s.frv. „Þetta er skynsamlegt, einfalt og kostar ekki neitt en getur bjargað lífi þínu,“ segir talsmaðurinn.