19/04/2024

Einn í fangageymslu

Frá því er greint á fréttavefnum mbl.is að einn hafi gist fangageymslu á Hólmavík eftir átök við lögregluþjón á Drangsnesi í nótt, en þar var þorrablót. Mun lögreglumaðurinn hafa verið hruflaður og lemstraður eftir átökin við manninn og segir á mbl.is að lögreglan á Hólmavík líti málið mjög alvarlegum augum. Manninum var sleppt eftir skýrslutöku í dag. Um 100 manns voru á blótinu á Drangsnesi í gærkveldi og 150 borguðu sig inn á þorrablót á Hólmavík á sama tíma.

Á mbl.is er talað um að ólæti hafi brotist út á þorrablótunum bæði á Hólmavík og Drangsnesi, en tíðindamenn strandir.saudfjarsetur.is sem voru staddir á blótinu á Hólmavík telja fullvíst að eitthvað sé saman við þá frásögn. Því fari víðs fjarri að um almenn ólæti hafi verið að ræða. strandir.saudfjarsetur.is vill einnig benda á að rétt er að segja á Hólmavík en ekki í. Eins virðist eðlilegt að tala um að eitthvað gerist á þorrablótum en ekki í þeim. Kunnum við þó enga skýringu á þessum ritvenjum.