29/03/2024

Drekktu betur á föstudaginn

Föstudagskvöldið 2. maí fer hin svonefnda Drekktu Betur keppni fram á Café Riis á Hólmavík. Þetta er keppni nr. tvö, en sú fyrsta fór fram þann 11. mars sl. og þá var Gunnar Melsteð spurningahöfundur. Á keppninni á föstudaginn, sem hefst laust eftir kl. 21:00, verður hins vegar Arnar S. Jónsson spyrill og verða spurningarnar almenns eðlis. Gestir keppa í tveggja manna liðum úti í sal og það lið sem hefur flest svör rétt fer með sigur af hólmi. Barinn á Riis verður að sjálfsögðu opinn á keppninni og síðan frameftir ef stemmning er í mannskapnum. Keppnin þótti takast afar vel síðast og vonast aðstandendur til að fólk fjölmenni aftur á svæðið nú á föstudaginn.  Hér fyrir neðan gefur að líta reglur keppninnar.

1) Keppnin gengur undir nafninu Drekktu betur – á Hólmavík.

2) Spyrill mætir með 30 spurningar í farteskinu.

3) Gestir mæta með góða skapið og pening fyrir kaffi og/eða bjór. Þeim er ætlað að fá sér sæti og skemmta sér vel allt kvöldið.

4) Gestir skipta sér í keppnislið. Hvert lið inniheldur tvo einstaklinga.

5) Spyrill spyr salinn 30 spurninga og keppnislið skrifa svör sín við spurningunum á þar til gert blað, jafnóðum og spurt er. Lið mega ekki skiptast á svörum. Gjamm og frammíköll sem innihalda svör eru bönnuð. Einnig er bannað að nota síma, internet eða alfræðirit meðan á keppni stendur.

6) Þegar spyrill hefur lokið við að lesa upp spurningarnar fá keppnislið smá tíma til að fara yfir svör sín. Eftir það skiptast lið á svarblöðum og spyrillinn les upp rétt svör við spurningunum. Keppnislið merkja við rétt eða rangt svar á svarblaðinu og telja saman rétt svör áður en liðin skiptast aftur á blöðum. Þá eru öll svarblöð komin til réttra eigenda á ný.

7) Því sem næst er farið yfir hvaða lið eru stigahæst. Til að eiga möguleika á bjórkassanum sem er í verðlaun, þarf sigurliðið að vera með minnst 15 svör rétt. Nái ekkert lið 15 réttum svörum bætist kassinn við næstu keppni og verða þá tveir kassar í boði.

8) Ef lið eru jöfn fer fram bráðabani, alveg þar til eitt lið stendur uppi sem sigurvegari. Þá er fyrst spurt 5 spurninga og reynt að knýja fram sigurvegara með flestum svörum réttum. Ef ekki fæst sigurlið úr þessum 5 spurningum skal spyrja þriggja spurninga að auki. Ef ekki fást niðurstöður eftir þá lotu eru keppnisliðin bersýnilega jafnsterk og neyðast því til að deila með sér bjórkassanum.

9) Í hverri keppni er Bjórspurning. Þau lið sem ná að svara þeirri spurningu rétt eiga þá inni tvo litla bjóra á barnum. Fram kemur eftir keppni hvaða lið eiga inni bjóra.

10) Spyrill er alvaldur og dómar hans um vafamál í spurningu eða svari eru óumdeilanlegir. Ekki er hægt að bera upp formlega kvörtun eftir keppni, en svekktum keppendum er bent á að hægt er að drekkja sorgum sínum á barnum.